Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.
og á ensku:
I can do all things through Christ who strengthens me.
Þess vegna vissi ég að ég gæti þetta með hjálp Guðs, en samt á tímabili langaði mig að beila :S Þá hugsaði ég, nei ég get þetta og ég ætla að tala. Fyrir suma er þetta ekkert mál að standa upp og tala fyrir framan fólk, en fyrir mig er það mjög erfitt, ég reyni að forðast það eins mikið og ég get.
Fyrir þá sem voru ekki þarna í gærkvöld og þá sem vilja vita hvað ég talaði um, þá set ég hér textann sem ég talaði út frá.
Lesa Biblíuna og biðja
Hæ, fyrir ykkur sem þekkja mig ekki, þá heiti ég Jóhanna og er að verða tvítug. Ég er ekki að fara að prédíka, bara deila með ykkur stuttlega smá sem mér fannst Guð leggja á hjarta mitt. Fyrir viku síðan bað Ívar mig um að koma með stutta hugleiðingu næsta föstudag(í dag). Ég fékk strax hnút í magann og hjartað fór á fullt. Vegna þess að ég er hrædd við að standa upp á svið og tala fyrir framan fólk og reyni að forðast það eins og heitan eldinn. En ég ákvað að taka áskoruninni og stíga í trú um að Guð hjálpaði mér. Ég fór strax að leita Guðs um hvað ég átti að tala til ykkar. Ég bað líka Guð um að taka burt hnútinn í maganum og gefa mér innri frið. Fyrst fannst mér erfitt að velja hvað ég ætti að tala um, það er svo margt sem hægt er að velja. En ég vildi koma með hvetjandi og uppörvandi orð frá Guði. Næsta kvöld var ég komin með efnið og hnúturinn var farinn. Ég ákvað að tala um mikilvægi þess að lesa Biblíuna reglulega og biðja. (ég ætlaði hvort sem er að fjalla um það í minni næstu hugleiðingu á blogsíðunni minni).
Af hverju er það mikilvægt að lesa Biblíuna og biðja?
Eftir að við tökum á móti Jesúm sem frelsara okkar verðum við að rækta persónulegt samband við Hann. Það gerum við með því að lesa Biblíuna, sem er orð Guðs og biðja.
Til þess að nálgast Guð og vera stöðug í honum verðum við að lesa reglulega í Biblíunni.
Biblían er orð Guðs, skrifað fyrir okkur. Guð talar til okkar í gegnum Biblíuna, inn í okkar kringumstæður. Við notum bænina til þess að tala við Guð. Við biðjum fyrir okkur sjálfum, biðjum um hluti og fyrir fólki. Og alltaf ætlumst við til þess að Guð svari bænum okkar. Hann svarar alltaf bænum okkar, en oft kannski ekki eins og við viljum hafa það. Og ekki má gleyma að þakka Guði, fyrir allt sem Hann gefur okkur, og fyrir bænasvörin. Við þurfum að trúa því að Guð muni svara bænum okkar, og þakka fyrir bænasvörin áður en við fáum það sem við biðjum um. Ef við trúum ekki að Guð geti gefið okkur það sem við biðjum Hann um, þá mun hann ekki veita okkur bænasvör.
Alveg eins og við þurfum að borða mat á hverjum degi, eins þarf okkar andlegi maður á næringu að halda. Andinn nærist í gegnum Orð Guðs. Ef við lesum reglulega í Orði Guðs og biðjum til hans þá vöxum við í trúnni. Þekking okkar og skilningur eykst því meir sem við lesum í Biblíunni. Guð vill að við vöxum í trú og “fullorðnumst” í trúnni.
Þó að Biblían væri skrifuð fyrir mörg hundruð árum síðan þýðir það ekki að hún gildir ekki enn þann dag í dag, eins og margir vilja halda. Hún á líka svo sannarlega við núna. Biblían var skrifuð sem vegvísir fyrir okkur, til að leiðbeina okkur í göngu okkar með Kristi. Við getum lært marg af persónunum í Biblíunni, og forðast að gera sömu mistök og þau. Biblían er sönn, skrifuð af miklum Guðs mönnum, sem voru innblásnir af Guði.
Hérnar koma nokkur vers sem ég valdi í tengslum við þetta efni.
Sálmarnir 119:9
Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.
Til þess að gera Guðs vilja, halda vegi okkar hreinum og syndga ekki þá verðum við að lesa í Orði Guðs. Í versinu er talað um ungan mann, en það á líka við um ungar konur.
Sálmarnir 119:11
Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.
Ef við viljum komast hjá því að syndga þá er mjög gott að læra vers utanað. Síðan ef freistingar koma að okkur þá kemur kannski upp vers í kollinum á okkur sem tengist kringumstæðunum og hjálpar okkur að segja nei við syndinni.
Sálmarnir 119:148
Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.
Í þessu versi er dæmi um hvenær er góður tími til þess að hafa stund, lesa í Biblíuna og biðja. Hérna er aftur talað um að leggja vers á minnið.
Matteusarguðspjall 4:1-4
Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina, að hans yrði freistað af djöflinum. Þar fastaði hann fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. Þá kom freistarinn og sagði við hann: Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú, að steinar þessir verði að brauðum. Jesús svaraði: Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.
Matteusarguðspjall 6:5-8
Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér. Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja, að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína. Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann.
Matteusarguðspjall 7:7-8
Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.
1. Pétursbréf 2:2
Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis.
Ég hvet ykkur eindregið að lesa reglulega í Biblíuna, helst daglega. Hver getur haft mismunandi aðferðir, mér fannst sniðugt það sem Friðrik sagði þegar hann talaði til okkar um daginn. Hann notaði klukkutíma eftir skóla í að stúdera Orð Guðs. (ég les bæði morgna og kvölds, svo að það er það fyrsta og seinasta sem ég geri á hverjum degi)
Það þarf ekki endilega að vera margir kaflar, bara kannski nokkur vers á dag. Einnig er góð hugmynd að draga mannakorn. Oft hefur það hjálpað mér, Guð hefur talað sterklega til mín í gegnum mannakornin. Eins og einu sinni þegar ég bað Guð um hjálp með eitthvað, þá ákvað ég að draga vers, og þá dró ég Jesaja 41:13: Því að ég, Drottinn, Guð þinn, held í hægri hönd þína og segi við þig: ,,Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!``. Akkúrat það sem ég þurfti. Maður þarf ekki að lesa Biblíuna frá byrjun til enda, eins og flestar aðrar bækur, heldur er Biblían safn af mörgum bókum. Gott er að byrja að lesa nýja testamentið, t.d. eins og Jóhannesarguðspjall. Við eigum að hungra og þyrsta eftir orði Guðs. Okkur á að langa til að eyða tíma með Guði og tala við hann, en ekki bara gera þetta vegna skyldu, eins og ég gerði því miður í 6-7 ár, eða þangað til ég frelsaðist fyrir nærri þremur árum síðan.
Í dag gerðist svolítið spés. Tilviljun myndu margir segja en ég trúi ekki á tilviljanir, þetta var stýrt af Guði. Þegar ég var að gera upp eftir vinnu áðan, hvað sé ég þá í ruslinu nema bunka af vasa-Biblíum, Nýja Testamentið og Sálmarnir. Ég tímdi ekki að henda þessu þannig að ég hirti þær allar. Ég kom með 15 Biblíur, sem mig langar að gefa ykkur, sérstaklega þeim sem eiga ekki svona, þar sem ekki allir geta fengið.
Ég sleppti sumt af því sem stóð á blaðinu, en í staðin þá bætti ég oft við einhverju. Þetta gekk bara ágætlega, þegar ég var búin þá klöppuðu allir og ég labbaði í sætinu mínu, brosandi út að eyrum, svo fegin að vera búin með þetta og að það gekk vel. Eftir samkomu gaf ég nokkrum vasa-Nýja Testamentið, en flestir áttu svona, þannig að ég er enn þá með næstum 10 stykki. Þannig að ef þið eigið ekki svona litla útgáfu af Nýja Testamentinu, og viljið eignast eitt eða tvö stykki þá endilega hafið samband við mig.
2 comments:
Sæl Jóhanna!
Glæsilegt hjá þér, ég er stoltur af þer fyrir að taka áskoruninni.
Þannig vex maður í trúnni og djörfunginni,taka ný skref og halda áfram...
Kv.Gaui
hæ! Mér fannst þetta magnað hjá þér, geggjað gott efni og mikið sem maður þarf að hugleiða á hverjum degi...en veistu ég er alveg einsog þú, ég á mjög erfitt með að standa uppi fyrir framan fólk og tala. Jú ég hef lagast og sérstaklega eftir að ég byrjaði í lofgjörðinni en samt finnst mér allt öðruvísi að prédika. Og öðruvísi að syngja, en ég elska að syngja lofgjörðarsöngva..kannski er það málið...passion! En held að Guð hafi ekki gefið mér prédikunarhæfileika bur who needs that! Trust God, and u can do everything u want to! hehe orðið soldið langt komment sry...en síja! ;)
Post a Comment