Tuesday, April 25, 2006
Ég veit að ég hef ekki bloggað lengi en ég gat bara ekki dottið neitt í hug, gat ekki komið með neina góða hugleiðingu. Það eina sem mér datt í hug að var skrifa um einmannaleika, en núna langar mig ekki að tala um einmannaleika ;) Þannig að ég ætla bara að segja frá helginni minni sem var frábær, í alla staði mjög skemmtileg og langt í frá því að einkennast af einmannaleika :)
Þetta byrjaði allt í rauninni á fimmtudagskvöldið, stelpufundur var upp í kirkju kl 7 að þessu sinni og áttum við allar að koma með eitthvað á hlaðborð. Það eina sem mér datt í hug var að búa til kartöflugratín, vildi koma með heitan rétt fyrst þetta var um kvöldmatarleitið. (Ekki spyrja mig af hverju mér datt ekkert annað í hug)
Á meðan ég man þá var þetta á sumardaginn fyrsta. Flestir voru í fríi en ég asnaðist til að spyrja verlsunarstjórann daginn áður hvort ég ætti að vinna og auðvitað greip hann mig glóðvolga þar sem ég eiginlega bauðst til þess að vinna á sumardaginn fyrsta!! En það var svo sem allt í lagi, var voða lítið á kassa, hjálpaði aðeins til í grænmetinu en var annars mest í ostunum (fylla á ostakælinn). Ég átti fyrst bara að vinna hálfan daginn, til svona eitt, tvö. En nei einn strákur sem átti að mæta kl 12 mætti ekki þannig að það vantaði manneskju til að leysa af á kassa, þannig að ég vann til þrjú. Fór heim og bjó til kartöflugratín og hafði mig til fyrir stelpuhópinn.
Ok ég ætla ekki alveg að rekja allt sem gerðist um helgina hjá mér, reyni að segja mest frá aðalatriðunum. Alla veganna upp í kirkju þá mættu strákarnir líka, þeir voru víst að fá Friðrik prestinn til að tala til þeirra. Og svo kom hópur af Hollendingum í heimsókn. Byrjað var að fá sér smá snarl. Síðan fóru strákarnir í salinn og við stelpurnar fórum í setustofuna, erum búnar að eigna okkur hana eins og Ívar sagði ;) Tinna töff talaði til okkar, um Guðs reglur og að ef við förum eftir þeim þá líður okkur vel, og margt fleira. Eftir á var spjallað og fengið sér ís :)
Föstdagskvöldið var ekki samkoma upp í kirkju eins og venjulega heldur fórum við niðri í KFUM&KFUK, þar sem var samkoma(kynning á lofgjörðarmótinu sem var um helgina). Lofgjörðarhljómsveitin Mike Hohnholz Band kom fram og Halldór Lárusson prédíkaði. Hann talaði um það sem er mikilvægast um lofgjörðina, hvernig við lítum á Guð og hvernig hann lítur á okkur. Þegar við lofum Guð erum við í nærveru hans. Hann talaði líka um margt annað sem tengdist lofgjörðinni. Eftir samkomuna fórum við(hópurinn úr Kristkirkjunni) ásamt hljómsveitinni niðri í bæ á Nonnabita. En ég og Ásta fengum okkur pylsu á Bæjarins bestu. Síðan var partý heima hjá nýja stráknum, honum Arnari. Ekki alvöru partý samt, heldur saumaklúbbur eins og Kiddi kallar okkar partý
Hljómsveitin hélt síðan tónleikar á laugardagskvöldinu. Ég hafði aldrei áður heyrt um þessa hljómsveit en mér fannst tónleikarnir frábærir. Ásta tók frá sæti fyrir mig og við vorum fremstar! :) Guðrún komst því miður ekki vegna þess að hún var að fara á MH leiksýninguna. Hljómsveitin spilaði bæði þeirra eigin lög og önnur vinsæl lög sem maður kannaðist við og þá sungum við með. Eftir tónleikanna fór hópurinn og hljómsveitin í keilu! Þar sem ég hef ekki farið í keilu í mörg ár, þá vildi ég ekki líta út eins og allgjör hálfviti þannig að ég horfði bara á. En það var samt gaman. Svo fóru flestir í afmæli hjá tveimur strákum úr Fíló, þeim Steindóri og Eyþóri. Og þar sem þetta var rétt hjá mér kíkti ég við á leiðinni heim.
Á sunnudaginn fór ég á lokasamkomuna á mótinu, það var sungið mikið og hljómsveitin komu aftur fram. Síðan gaf einn meðlimur hljómsveitarinnar vitnisburð sinn.
Eftir kvöldmat fór ég svo í stutta heimsókn til Arndísar.
Þetta var mín skemmtilegasta helgi lengi, og bætti upp páskafríið :)
Wednesday, April 12, 2006
Ég er komin í páskafrí! Þarf ekki að vinna um páskana, það verður fínt að geta sofið út í nokkra daga :-) Hlakka til að taka því bara rólega, hitti vinina og svona. Hlakka líka til að fá páskaegg! Ætla að borða það án þess að vera með samviskubit og vona bara að ég verði ekki veik. Dýrin fá líka páskaegg eins og þessi fílsungi :-)
Frábærar fréttir, ég er að fara í útskriftarferð með fjölskyldunni til Spánar!! Fyrsta sinn sem ég mun fara til sólarlanda! Hlakka ekkert smá til, pabbi og mamma voru bara að kaupa miðana í dag :-) Ég lærði spænsku í eina önn og núna er málið bara að rifja það upp, er enn þá með bækurnar. Skemmtilegra að geta sagt eitthvað á spænsku ;-). Við verðum í heilar tvær vikur!
Er búin að sækja um í háskóla í Gautaborg, ætla að læra líffræði ef ég kemst inn. En ég fæ ekki að vita það fyrr en eftir þrjá mánuði! Frekar langur tími :S Við förum líklegast til Svíþjóðar í júlí.
Thursday, April 06, 2006
Núna kem ég loksins með hugleiðinguna sem ég ætlaði að vera með fyrir viku síðan. Tók aðeins lengri tíma að byrja að skrifa hugleiðinguna en ég hélt.
Ég er að vinna í Nóatún Austurveri, sem kassastarfsmaður. Ég á svona lítil blá kort sem ég hef skrifað vers á, til þess að læra utan að og er ég með þau á kassanum þannig að ég geti hugleitt Orð Guðs gegnum daginn. Fyrir viku síðan valdi ég eitt vers í bunkanum og var það
Sálmur 145:18-19
Drottinn er nálægur öllum þeim sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni. Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
Um þetta vers hugsaði ég gegnum daginn og ákvað að koma með stutta hugleiðingu. Ég hef heyrt kristið fólk t.d. segja: ég finn ekki fyrir nálægð Guðs, mér finnst hann vera langt í burtu stundum og fleira, ég hef líka hugsað svona. En síðan förum við á samkomur og mót og þá fyllumst við af anda Guðs og finnum fyrir nálægð hans. En þetta gengur ekki bara út á tilfinningum. Guð er alltaf nálægur okkur þó að okkur finnst við ekki finna fyrir nálægð hans. En eins og það segir í versinu þá verðum við að leita hans og koma til hans, af öllu hjarta, vera okkur sjálf og vera einlæg. Við verðum að biðjast fyrirgefningar á syndum okkar og vera auðmjúk frammi fyrir Guði. Þá mun hann vera nálægur okkur. Á meðan ég var að hugleiða þetta þá man ég líka eftir einu öðru versi sem talaði um að nálgast Guði. Og viti menn, næsta dag þegar ég tek upp bunkann minn með versunum og set hann á kassanum hjá mér, hvaða vers snýr fyrst upp af öllum versum?? Versið sem ég hafði hugsað til!!!
Jakobsbréfið 4:7-8
Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum og þá mun hann flýja yður. Nálægið yður Guði og þá mun hann nálgast yður.
Var þetta tilviljun að akkúrat þetta vers sneri upp? Nei ég trúi ekki á tilviljanir, ég trúi því að Guð ákveður allt fyrir fram og ég trúi því að það var Guð sem lét þetta vers snúa upp. Þá varð ég enn þá ákveðnari um að koma með þessa hugleiðingu. Þar sem það er orðin vika síðan ég hugsaði um þetta þá er þessi hugleiðing ekki orðrétt eins og ég hafði hugsað mér hana en aðalatriðin koma fram. Í þessu versi er aftur talað um að nálgast Guði, aftur eru það við sem þurfum að koma til hans, nálgast hans af frjálsum vilja.Guð bjó okkur ekki eins og vélmenni svo að hann gæti skipað okkur fyrir verkum, nei hann gaf okkur frjálsan vilja svo að við gætum valið sjálf hvort við viljum taka á móti gjöf Guðs og eiga persónulegt samfélag við hann. Þegar við ákveðum að taka á móti Jesú eigum við að fara eftir Guðs vilja, þess vegna verðum við að gefa okkur Guði á vald, eins og segir í versinu. Við eigum því að gefa Guði allt, við eigum að treysta honum fyrir öllu, allt okkar líf, og allt sem við gerum og ætlum að gera, meira að segja treysta honum fyrir ástarmálum okkar. Hann þekkir okkur best, betur en við þekkjum okkur sjálf og hann hefur ákveðið líf okkar, þess vegna trúi ég því að hann hefur ákveðið hverjum við giftumst. Af hverju ekki að treysta honum fyrir því og láta hann sjá um að leiða okkur tvö saman þegar rétti tíminn er kominn? Núna er ég aðeins komin út fyrir efnið en það sem ég var að tala um er að við eigum að nálgast Guði og þá mun hann nálgast okkur. Þegar við erum í nærveru Guðs þá gefst djöfulinn ekkert færi á okkur, við stöndum gegn honum og þá flýr hann. Og í fyrra versinu segir að Guð muni uppfylla ósk okkar, þannig að ef við nálgumst honum, treystum honum og biðjum hann um það sem hjarta okkar þráir þá mun hann bænheyra okkur eins og segir í öðru versi.
Jæja þá ætla ég að slá botni á þessari hugleiðingu, sem var ekki mjög stutt. Endilega látið heyra í ykkur og hvað ykkur finnst um þetta.